Dr. Helgi Pjeturss og jarðfræði Íslands
Baráttusaga íslensks jarðfræðings í upphafi 20. Aldar
Jarðfræðingurinn Helgi Pjeturss (1872-1949) var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsnámi í jarðfræði. Hann tók þá ákvörðun á unglingsárum að verða jarðfræðingur og stunda rannsóknir á Íslandi en fyrir hans tíma hafði fræðigreinin mest einkennst af landkönnunum og yfirlitsrannsóknum. Helgi kom fyrstur fram með aðferðafræði jarðvísindamanns og einbeitti sér að lausnum á ákveðnum viðfangsefnum sem við blöstu í íslenskri jarðfræði.
Bókin er byggð á ýmsum heimildum um ævi hans, þar á meðal bréfum hans til fjölskyldu sinnar og einnig bréfaskiptum við fjölmarga jarðvísindamenn. Fróðleikur er sóttur í ferðadagbækur og jarðfræðiritgerðir eftir hann sem birtust flestar í erlendum tímaritum á ensku, þýsku og dönsku. Þær hafa ekki verið aðgengilegur íslenskum lesendum fyrr en í þessari bók.
Fjallað er um æskuár Helga og námsárin í Kaupmannahöfn 1891-1897. Þá er fjallað ítarlega um jarðfræðirannsóknir hans á árunum 1897-1910. Þar er fryst sagt frá rannsóknarferð hans til Grænlands sumarið 1897 en eftir það einhenti hann sér í jarðfræðirannsóknir á Íslandi. Sérkafli er um hvert ár á þessu tímabili og sagt frá rannsóknarferðum og bréfaskiptum við erlenda vísindamenn auk þess sem uppdrættir eru af ferðaleiðum.
Helgi komst fljótt í álit meðal erlendra vísindamanna. Ekkert starf við hæfi bauðst honum á Íslandi en styrkir gerðu honum kleift að stunda rannsóknir um árabil með frábærum árangri.
Í bókinni eru jarðfræðigreinar eftir Helga þýddar úr dönsku og þýsku. Þær eru m.a. doktorsritgerðin „Om Islands Geologi“ sem kom út 1905 og yfirlitsgreinin „Island“ sem birtist árið 1910. Fjallað er um samskipti Helga og Þorvaldar Thoroddsens og birtar þýddar greinar eftir þá báða um ágreining þeirra varðandi ísöldina.
Ástand: ný.
Umsagnir
Það eru engar umsagnir enn.