Guðmundur Frímann, skáld og rithöfundur, fæddist í Hvammi í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu 29.7. 1903 og lést 14.8 1989. Hann var sonur Guðmundar Frímanns Björnssonar, bónda á Móbergi og í Hvammi,og k.h., Valgerðar Guðmundsdóttur húsfreyju. Guðmundar kvæntist Rögnu Sigurlínu Jónasdóttur húsfreyja og eignuðust þau þrjár dætur, Valgerði, Gunnhildi og Hrefnu.
Guðmundur stundaði nám í leirsmíði hjá Einari Jónssyni myndhöggvara í einn vetur, stundaði nám við Iðnskólann á Akureyri, lauk prófum sem húsgagnasmíðameistari og lauk sveinsprófi í bókbandi.
Guðmundur var húsgagnasmiður á Akureyri á árunum 1930-39, kennari við gagnfræðaskólann í Reykholti 1939-41, var verkstjóri í Vélabókbandinu hf. á Akureyri 1941-51 og loks kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri á árunum 1951-73.
Guðmundur var afkastamikill rithöfundur. Hann sendi frá sér ljóðabækurnar Náttsólir, æskuljóð, 1922; Úlfablóð, 1933 og 1937; Störin syngur, 1937; Svört verða sólskin, 1951; Söngvar frá sumarengjum, 1957; Kvæðið um Kofahlíð og tveim betur, 1973; Draumur undir hauststjörnum, frumort ljóð og þýdd, 1980, og Undir lyngfiðluhlíðum, úrval á áttræðu 1983. Guðmundur samdi skáldsögur og fjölda smásagna sem komu út í fimm smásagnasöfnum hans og margar sem birtust í tímaritum og víðar. Þá þýddi hann smásögur, sendi frá sér þó nokkrar unglingabækur og Kennslubók í bókbandi og smíðum.
Guðmundur var einkar músíkalskur eins og vel kemur fram í rytma og rími ýmissa ljóða hans. Hann var auk þess prýðilegur teiknari, sinnti teikningum um langt árabil og myndskreytti sumar bóka sinna.
Guðmundur fékk skáldalaun frá 1937, hlaut fyrstur styrk úr Rithöfundasjóði ríkisútvarpsins og var heiðursfélagi í Félagi íslenskra rithöfunda frá 1984.
Bækur eftir Guðmund Frímann sem fást hjá Bókalind eru:
- Leita eftir Default
- Sýna 15 Vörur per blaðsíðu