Vigfús Björnsson

Gestur Hannson (ekki Hansson) er rithöfundarnafn og á bak við nafnið er Vigfús Björnsson, rithöfundur og meistari í bókbandi. Hann hefur skrifað fjölda bóka hvort heldur sem er undir eigin nafni eða undir dulnefnunum: Gestur Hannson, Kári Karlsson eða Hreggviður Hlynur.
Vigfús hefur skrifað fjölda sígildra barnabóka og ber þar helst að nefna Strákabækurnar „Strákur á kúskinnsskóm“, „Strákur í stríð“, „Strákur og heljarmenni“ og „Vort strákablóð“ auk stelpubóka undir dulnefninu Gestur Hannson. Undir réttu nafni hefur höfundurinn skrifað bækurnar svo sem: Huldulandið, Smaladrengurinn og hestar mínir.
Vigfús Björnsson bókbandsmeistari og rithöfundur fæddist á Ásum í Skaftártungu 20. janúar 1927. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 6. janúar 2010. Foreldrar Vigfúsar voru séra Björn O. Björnsson og kona hans Guðríður Vigfúsdóttir. Foreldrar séra Björns voru Oddur Björnsson prentmeistari á Akureyri og kona hans Ingibjörg Benjamínsdóttir húsfreyja.
Vigfús hóf nám í bókbandsiðn 1947 við Iðnskólann í Reykjavík, – þaðan lauk hann sveinsprófi og varð seinna bókbandsmeistari. Árið 1950 hélt Vigfús til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms. Að því námi loknu var Vigfús óráðinn en þá bárust honum boð frá föðurbróður sínum Sigurði O. Björnssyni um að hans væri þörf í fyrirtæki fjölskyldunnar Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri. Leið Vigfúsar lá því norður til Akureyrar. Sem verkstjóri í bókbandi í POB starfaði Vigfús síðan í 30 ár.

Meðfram vinnunni var Vigfús við ritstörf og skrifaði á annan tug bóka undir dulnefnum t.d. Gunnar Hannson, Kári Karlsson og Hreggviður Hlynur auk þess komu líka bækur út eftir hann undir sínu nafni.