Ferðabók Sveins Pálssonar 1791-1797

Dagbækur og ritgerðir

Sveinn Pálsson (1762-1840) fæddist og ólst upp á Steinsstöðum í Skagafirði, elstur sex systkina. Að loknu fimm ára námi á Hólum 1782 reri hann eina vetrarvertíð í Njarðvík og hóf síðan læknanám hjá Jóni Sveinssyni landlækni í Nesi við Seltjörn. Þar var hann fjóra vetur en sigldi til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn haustið 1787 án þess að ljúka prófi. Ástæðan var sennilega sú, að ári áður gekk bólusótt á Suðurlandi og sendi Sveinn föður sínum á Steinsstöðum bóluvessa úr sýktu fólki og ráðlagði honum að bólusetja systkini sín til varnar veikinni.

Í Kaupmannahöfn opnaðist Sveini ný veröld fegurðar og unaðar — leikhús, sönglist, málverkasöfn, bókhlöður — sem hann þó gat minna stundað en hann vildi sökum fátæktar, og harmaði það alla ævi. En jafnframt fékk hann brennandi áhuga á náttúruvísindum sem hann kynntist að hluta gegnum læknanámið (einkum grasa- og steinafræði). Læknanámið stundaði hann samt af kappi, en þegar styrktíma hans lauk vorið 1791 sá hann ekki fram á að geta þraukað í Höfn ár í viðbót til að ljúka því námi. Því fór hann að ráði náttúrufræðikennara síns og lauk prófi í steina- og grasafræði frá Hafnarháskóla, fyrstur manna í Danmörku. Þar réð nokkru von um kennarastarf við latínuskólann í Reykjavík, en ekki síður að nýstofnað (1789) náttúrufræðifélag, Naturhistorie Selskabet, lofaði honum fjögurra ára ferðastyrk til Íslands að prófinu loknu.

Sveinn kom til Reykjavíkur síðsumars 1791 með von í brjósti að eiga afturkvæmt til Hafnar að ljúka læknanáminu. Ekki gekk það eftir, en í hönd fóru rannsóknaferðir í fjögur sumur. Vetursetu fékk hann hjá Skúla landfógeta í Viðey; ekkert færi lét hann ónotað til náttúruskoðunar en sinnti einnig lækningum, því margir leituðu til hans, og var svo jafnan á ferðum hans.

Sumrin 1791-94 ferðaðist Sveinn um mikinn hluta landsins, frá Mýrum suður og austur um Djúpavog, Fljótsdal og Mývatnssveit til Skagafjarðar, og þaðan fjallvegi suður. Snæfellsnes, Vestfirði og Húnavatnssýslu skoðaði hann ekki, né heldur NA-hornið. Árlega sendi hann fjölda náttúrugripa — plöntur, dýr og steina — sem og skýrslur um ferðir sínar til Náttúrufræðifélagsins og voru tvær þær fyrstu prentaðar í skýrslu félagsins, en síðan fékk hann ekki staf prentaðan hjá því né öðrum.

Haustið 1794 var lokið náttúrufræðiferðum Sveins fyrir utan nokkrar minni ferðir á eigin vegum. En alla ævi hafði hann opin augu fyrir náttúrunni, og skrifaði margt í dagbækur sínar sem hann hélt nánast til dauðadags 1840. Ferðirnar höfðu þó orðið Sveini örðugri og árangursminni en ella hefði verið vegna vanefna Náttúrufræðifélagsins danska við greiðslu styrkjanna, og ekki bætti úr skák öfund ýmissa Íslendinga og rógmæli um Svein við stjórn félagsins. Allt um það telja menn að hróður Ferðabókar Sveins, hefði hún komið út á sínum tíma, hefði orðið engu minni en Ferðabókar Eggerts og Bjarna aldarþriðjungi fyrr.. (Heimild: Vísindavefurinn, Sigurður Steinþórsson prófessor emeritus)

Bókin Ferðabók Sveins Pálssonar 1791-1797 eru tvær bækur í 14 köflum, þær eru:

I. bindi

  • Formáli um handritið og bókina
  • Helstu rit Sveins Pálssonar
  • Um höfundinn og verk hans
  • Dagbók 1791 og 1792 Steindór Steindórsson, þýddi
  • Dagbók 1793 Pálmi Hannesson, þýddi
  • Dagbók 1794 Jón Eyþórsson, þýddi

II. bindi

  • Jöklaritið
  • Eldritið
  • Lýsing Gullbringusýslu
  • Lýsing Hegranessýslu
  • Ferð til Fiskivatna sumarið 1795
  • Reykjanesför 1796
  • Ferð til Geysis og Heklu sumarið 1797

Viðauki

  • Anniversaria 1795
  • Anniversaria 1796
  • Anniversaria 1797
  • Skrá um náttúrugripi, að mestu á latínu
  • Skýringar
  • Registur
  • Myndir

Ástand:  vel með farin bæði askja, innsíður og kápa.

Ferðabók Sveins Pálssonar I og II bindi í öskju - dagbækur og ritgerðir 1791-1997 - Sveinn Pálsson - Örn og Örlygur 1983

kr.13.500

1 á lager

Frekari upplýsingar

Þyngd 2,4 kg
Ummál 20 × 6 × 26 cm
Blaðsíður:

I. bindi bls.: 420 +töflur +myndir II. bindi bls. 393

ISBN

Ekkert

Kápugerð:

Harðband (innbundin bók) klædd bókbandsefni og í öskju

Útgefandi:

Örn og Örlygur

Útgáfustaður:

Reykjavík

Útgáfuár:

1983 / 1945 (1. útgáfa)

Höfundur:

Sveinn Pálsson