Hjörleifshöfði

Myndir og minningar

HJÖRLEIFSHÖFÐI Myndir og minningar. Frásögur eftir Kjartan Leif Markússon. Halla Kjartansdóttir tók saman og ritaði formála.

Fari maður austur Mýrdalsand blasir Hjörleifshöfði við sunnarlega á miðjum sandi. Líkt er mér eflaust farið og mörgum öðrum sem þarna hafa átt leið um að hafa langað til að ganga á Höfðann og skoða hann vel í fylgd með staðkunnugum. Af því hefur þó ekki orðið. En nú er leiðsögumaðurinn að minnsta kosti fundinn. Þægilegt er að stinga í vasann litlu og snotru kveri sem hefur að geyma átta frásögur eftir Kjartan Leif Markússon. Höfundurinn fæddist í Hjörleifshöfða árið 1895 og dvaldist í Höfðanum til ársins 1920. Þá fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni að Suður-Hvammi í Mýrdal og bjó þar síðan. Kjartan lést árið 1964. Kjartan Leifur var fróðleiksmaður og „skrifaði niður það sem honum þótti eftirminnilegt og taldi rétt að geymna það á prenti, hann gerði líka nokkuð af ljóðum og lausavísum, en því miður hélt hann kveðskapnum lítið saman … flest af því sem hann skrifaði og geymst hefur er mjög tengt Hjörleifshöfða og lífinu þar.“ Dóttir Kjartans, Halla, ritar ítarlegan og fróðlegan inngang að greinum föður síns. Þar er góð lýsing á Hjörleifshöfða ásamt helstu örnefnum, búsetu þar og lífi manna. Talið er að búið hafi verið í Hjörleifshöfða allt frá landnámsöld og til ársins 1936, en þá lagðist jörðin í eyði. Árið 1721 varð mikið Kötluhlaup, „e.t.v. það mesta sem sögur fara af, þá stóð bærinn fyrir neðan Höfðann og var þar þá, að því að talið er, nokkuð grasi gróið undirlendi …“ Hlaup þetta eyddi bænum og þegar hann var byggður á ný var það uppi á Höfðanum og hefur hann verið þar síðan. Hjörleifshöfði var fyrrum mikil jörð, „ekki minna en 7500 hektarar lands, sem er sandur“. Undir hana heyrir og Hafursey sem „var besta beitiland í Mýrdal, meðan hún var skógi vaxin“. En miklar hafa verið búsifjar Kötlu gömlu, fyrst 1721, síðan 1823, 1860 og 1918. Sá fyrsti af ættmennum Kjartans er gerði bú í Hjörleifshöfða var Loftur Guðmundsson er þar bjó 1832­1856. Þá tók við búi Markús sonur hans og bjó þar uns hann andaðist árið 1906. Markús var hinn mesti merkismaður, mikill bóndi og höfðingi og ritfær fróðleiksmaður. Hann ritaði merkt rit umn jarðelda. Eftir Markús bjó ekkja hans ásamt börnum sínum og seinna manni. Um allt þetta og miklu fleira má fræðast af formála þessa kvers og greinum.

Greinarnar átta eru skrifaðar á árunum 1918-­1963. Sú elsta er lýsing á Kötluhlaupinu 1918. Kjartan horfir á þetta ógnarhlaup ofan af Höfðanum. Er það áhrifamikil lýsing. Forvitnileg er greinin Bæjarstæðin þrjú í Hjörleifshöfða. Þar sýnir höfundur fram á hvar bærinn stóð fram að hlaupi 1721, sennilega allt frá landnámsöld. Þar hefur þá líklega skáli Hjörleifs verið. Lýsing hans er svo nákvæm að ferðamaður á að geta fundið staðinn þó að allt sé nú löngu sandi hulið. Kötluklettur heitir smágrein. Það nafn gaf höfundur bjargi einu miklu, um 1 km austan Höfðans, sem hann telur víst að hafi borist í Kötluhlaupinu 1918. Kannski gefur þetta bjarg manni betri hugmynd en annað um hvílíkur fimbulkraftur hefur verið að verki. Bjargið er 5 m hátt upp úr sandi og hann ætlar að það vegi vart minna en tvö þúsund tonn. Fýlaveiðar í Hjörleifshöfða er fróðleg og skemmtileg grein. Smágrein nefnist Afi og amma. Þar segir frá búskap og lífskjörum Lofts Guðmundssonar og konu hans, Þórdísar Markúsdóttur. Í annarri grein segir höfundur skemmtilega frá nokkrum Álftveringum og í lokagreininni er eins minnst sérstaklega, Benedikts skálda. Ritstöf þessa mýrdælska bónda eru lítil að vöxtum sé allt hér saman komið. Það er meira en lítið leitt, því að ágætlega var hann ritfær, sagði vel frá og ritaði íslensku eins og hún gerðist best. Þakkarvert er að greinum þessum skuli nú hafa verið safnað saman í eitt kver ásamt með hinum prýðilega formála.  (heimild: MBL, 1995)

kr.1.500

Ekki til á lager

Frekari upplýsingar

Þyngd 0,210 kg
Ummál 21 × 15 × 1 cm
ISBN

9979601876

Kápugerð:

Harðband (innbundin bók) klædd bókbandsefni með hlífðarkápu

Blaðsíður:

68

Útgefandi:

Ekki vitað

Útgáfustaður:

Þorlákshöfn

Útgáfuár:

1995

Ritstjóri

Halla Kjartansdóttir

Höfundur:

Kjartan Leifur Markússon

Umsagnir

Það eru engar umsagnir enn.

Ritaðu fyrstu umsögnina um “Hjörleifshöfði – Ekki til eins og er”